146. löggjafarþing — 77. fundur,  31. maí 2017.

jarðgöng undir Vaðlaheiði.

524. mál
[20:40]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér hina ágætu samgöngubót sem felst í jarðgöngum undir Vaðlaheiði. Ég hefði frekar viljað að við værum að greiða atkvæði um mál sem snerist um að horfast í augu við orðinn hlut, að framkvæmd þar sem ríkið er í ábyrgð fyrir rúmum 14 milljörðum af framkvæmdafé meðan einkaaðilar standa straum af nokkur hundruð milljón króna hlutafé er ekkert annað en ríkisframkvæmd. Ég mun ekki standa í vegi þessa góða máls enda þarf fjármunina til að klára göngin, en ég bind vonir við að árið 2021 þegar málið kemur aftur til kasta þingsins, þegar þarf að endurfjármagna það, verðum við að ræða frekar það að ríkið taki framkvæmdina yfir eins og eðlilegt er.