146. löggjafarþing — 77. fundur,  31. maí 2017.

jarðgöng undir Vaðlaheiði.

524. mál
[20:43]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég er ein af þeim sem standa að meirihlutaáliti fjárlaganefndar um þetta mál. Skemmst er frá því að segja að með álitinu erum við fyrst og fremst að verja hagsmuni ríkisins sem lánveitanda og leggja okkar af mörkum til að tryggja að framkvæmdinni verði lokið og að göngin komist í notkun.

Það eru tvö atriði sem mig langar að nefna sérstaklega og koma svo sem fram í álitinu. Annað er það að þegar er hafin vinna á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins við skýrslu um aðdraganda og undirbúning framkvæmdarinnar frá upphafi. Það er nauðsynlegt að sú skýrsla verði tekin til rýni hér á Alþingi og menn læri þar af reynslunni varðandi þetta verklag allt. (Forseti hringir.) Mig langar líka til að taka fram að meiri hlutinn telur nauðsynlegt að þegar framtíðarfyrirkomulag fjármögnunarinnar verður ákveðið komi hún til kasta Alþingis og lagt verði fram sérstakt lagafrumvarp um hana sem að öðru óbreyttu verður árið 2021.