146. löggjafarþing — 77. fundur,  31. maí 2017.

jarðgöng undir Vaðlaheiði.

524. mál
[20:49]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Allar samgöngubætur eru til góða. Það skiptir auðvitað máli hvernig að þeim er staðið. Á sínum tíma, þegar þetta mál var ákveðið, gat ég ekki stutt það á grundvelli þess að ég taldi að forgangsröðun væri röng á þeim tíma sem við áttum ekki fjármuni. Ég óskaði Norðlendingum hins vegar til hamingju með þær samgöngubætur sem þessi göng myndu verða þegar þau yrðu kláruð. Þau hafa lent í ótrúlegum hremmingum, flestum ófyrirséðum. Hugsanlega hefði eitthvað af þeim verið hægt að sjá með frekari rannsóknum, hugsanlega ekki. Þegar við stóðum frammi fyrir hálfkláraðri Hörpu á sínum tíma með enga peninga ákváðum við að klára hana. Það er augljóst að við ætlum líka að klára Vaðlaheiðargöngin. Þau verða góð samgöngubót. Sú spurning hvort ákvörðunin hafi verið rétt á sínum tíma er allt önnur saga.