jarðgöng undir Vaðlaheiði.
Frú forseti. Þetta mál er í raun hætt að snúast um það hvort grafa eigi göng, það er búið að grafa göngin. Nú þarf að vísu að klára þau og það er gott að klára þau því að þau eru samgöngubót. Ég hef reyndar aldrei skilið þá tilhneigingu Íslendinga að setja það fyrir sig að bora gat í gegnum fjall í hvert einasta skipti, að það skuli vera eitthvert stórmál. Staðreyndin er engu að síður sú að þetta snýst ekki lengur um að bora gat í gegnum fjall. Þetta snýst orðið um það hvernig eigi að fjármagna það verkefni. Eigum við að gera það með því að setja á ríkisábyrgð sem við vitum öll að mun falla á ríkið fyrr eða síðar, sennilega fyrr? Eða eigum við að hætta við þetta núna og gera þetta rétt með því að finna til fjárheimildina, gera þetta með eðlilegum hætti þannig að við leysum þetta eftir einhverjum af þeim fjölmörgu leiðum sem hv. þm. Björn Leví Gunnarsson hefur bent á og reyndar fleiri hér? Það er eðlilegt að vera ekki að skella einkaframkvæmd á bak ríkisins.