146. löggjafarþing — 77. fundur,  31. maí 2017.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

437. mál
[20:57]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Eitthvað hefur nú lekið úr blöðrunni síðan hún var blásin upp í New York. Og þó að ég sé einn af þeim sem styðja að málið verði samþykkt, einn af þeim sem standa á bak við meirihlutaálitið úr allsherjar- og menntamálanefnd, stend ég ekki hér til að taka víkingaklappið fyrir hæstv. jafnréttismálaráðherra Þorsteini Víglundssyni. Það er rétt sem fram kemur hjá hv. þm. Loga Einarssyni, hér er stigið skref í rétta átt. En það er ekki jafn stórt og menn vildu vera láta. Það hefur nú komið bersýnilega í ljós í meðförum þingsins. Og hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson þarf engar áhyggjur að hafa af því að fyllast aðskilnaðarkvíða því að þetta mál mun koma aftur inn á kjörtímabilinu. Það þarf að laga það þegar reynsla kemur á það, væntanlega strax í haust. Við í allsherjar- og menntamálanefnd munum ekki draga af okkur að kalla ráðherrann inn á þing með þau mál sem þarf til að gera þetta mál eins gott og það átti að vera, því að það (Forseti hringir.) var það ekki þegar það kom frá ráðherranum.