146. löggjafarþing — 77. fundur,  31. maí 2017.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

437. mál
[20:58]
Horfa

Nichole Leigh Mosty (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hv. allsherjar- og menntamálanefnd hefur lagt mikinn tíma og orku í að vinna í breytingum sem bæta frumvarpið að mínu mati. Ég vil sérstaklega taka fram að meiri hlutinn beinir því til velferðarráðuneytis í samráði við Staðalráð Íslands að semja um aðgang að staðlinum verði frumvarpið að lögum. Til þess tökum við mál til vinnslu í nefndum í sátt og samstarfi með velferðar- og jafnréttisráðuneytinu. Því meira sem ég hugsa um málsmeðferð frumvarpsins hjá okkur í tengslum við markmið málsins og þær viðhorfsbreytingar sem frumvarpið mun kalla á í samfélaginu, þeim mun meira fagna ég þeim breytingum sem gerðar voru á málinu í samvinnu við ráðuneytið. Þingið og ráðuneytið hafa lagt sitt af mörkum við vinnslu málsins. Ég fagna því líka að við erum að taka skref í átt að því markmiði að tryggja að karlar og konur fái sömu laun fyrir sömu störf. Ég bind miklar vonir við að í samstarfi við velferðarráðuneytið og jafnréttisráðuneytið verði áfram stuðlað að jafnrétti kynja á vinnumarkaði. Ég bind einnig vonir við að teknir verði til skoðunar aðrir áhrifaþættir á launamun kynjanna, svo sem kynbundið starfsval og (Forseti hringir.) launamunur milli starfsstétta.