146. löggjafarþing — 77. fundur,  31. maí 2017.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

437. mál
[21:04]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hér er um að ræða stærsta þingmál Viðreisnar og nánast eina alvörumál þess flokks á þessu þingi. En þetta mál á sér langan aðdraganda, allt til ársins 2008 þegar undirbúningur þess hófst. Málið þarf svo sannarlega að bæta enda allt of margir vankantar á því. Það þarf að laga málið, þetta er ekki patent-lausn sem við ræðum og og greiðum atkvæði um hér í dag. Til að stuðla að jöfnum launum kynjanna þarf að vinna á því sem mestu skiptir, að uppræta kynskiptan vinnumarkað og að kvennastörf séu metin til jafns við önnur störf. Að auki fangar þessi jafnlaunavottun ekki stéttaskiptinguna eða það hírarkí á vinnumarkaði sem ríkir, viðhorf og vinnumenningu og kynjað menntakerfi. (Forseti hringir.) Hér er um ágæta viðleitni að ræða en hefur alls ekkert með allsherjarlausn kynnta með víkingaklappi í New York að gera.