146. löggjafarþing — 77. fundur,  31. maí 2017.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

437. mál
[21:19]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Að sjálfsögðu er það gleðilegt þegar réttlætið verður meira. En það er ekki gott ef réttlæti byggir á öðru misrétti, það er ekki gott. Ég hélt satt best að segja að ráðherra hlyti að átta sig á því að þegar mál kemur inn í þingið og er ekki vel úr garði gert er það eins og að slá með blautri tusku í andlitið á fólki. Hér er fólk sem er búið að leggja mikið á sig til að laga málið. Við ætlum með sanni að ná þessu í gegn þannig að það væri vel úr garði gert. Það er ekki vænlegt til framtíðar að haga sér svona gagnvart þinginu.

Ég tel mjög mikilvægt, þegar við erum að fara með mál hér í gegn, hvaða mál sem það er, hversu dásamlegt og yndislegt sem það er og hversu mikið betra það gerir sumarið, að við vinnum það vel. Það er eina krafa mín.