146. löggjafarþing — 77. fundur,  31. maí 2017.

tekjustofnar sveitarfélaga.

306. mál
[21:41]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Frú forseti. Ég missti af því að fá að gera grein fyrir atkvæði mínu þegar ég sat hjá við breytingartillöguna. Við samþykktum stjórnarfrumvarpið sem gerði ráð fyrir að þessum fjármunum yrði úthlutað eins og upphaflega var gert ráð fyrir. Hér er verið að bæta sveitarfélögum tekjumissi vegna húsnæðisendurgreiðslanna á síðasta kjörtímabili. Upphaflega frumvarpið gerði ráð fyrir því að þær bætur myndu renna til sveitarfélaganna í réttu hlutfalli miðað við þær tekjur sem þau myndu missa af. Hér með breytingartillögunni er hluta fjármagnsins dreift til annarra sveitarfélaga, ekki eftir tekjumissinum, heldur út frá reiknireglum jöfnunarsjóðs. Ég get ekki sætt mig við það. En í ljósi þess að það hefur tekið þrjú ár að bæta sveitarfélögunum þennan tekjumissi og (Forseti hringir.) Alþingi hefur ekki náð saman um þetta, þá sætti ég mig við þann salómonsdóm sem hér er kveðinn upp og greiði atkvæði með.