146. löggjafarþing — 77. fundur,  31. maí 2017.

tekjustofnar sveitarfélaga.

306. mál
[21:43]
Horfa

Jónína E. Arnardóttir (S):

Virðulegi forseti. Til útskýringar á atkvæði mínu ætla ég að taka fram að þetta er ekki af því ég er byrjandi hér á þingi í dag að ég setti rautt á þetta, heldur vil ég vitna í fundargerð frá desember 2015 í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þar stóð ég að bókun ásamt þremur öðrum stjórnarmönnum. Með leyfi forseta ætla ég að vitna í þá bókun:

„Það er ósannað að sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hafi orðið fyrir þvílíku tapi að það réttlæti þessa breytingu á úthlutunarreglum. Auk þess gefur breytingin vont fordæmi til lengri tíma litið enda tekjuöflunarmöguleikar sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu allt aðrir og meiri heldur en smærri sveitarfélög á landsbyggðinni.

Standa ber vörð um hlutverk jöfnunarsjóðs sem er að jafna fjárhagslega stöðu sveitarfélaga.“

Þetta frumvarp vinnur að okkar mati, segjum við þarna, og að mínu mati, gegn því meginmarkmiði.