146. löggjafarþing — 77. fundur,  31. maí 2017.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð o.fl.

553. mál
[21:47]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Þetta frumvarp er flutt af hv. formanni efnahags- og viðskiptanefndar eftir að það kom inn sem tillaga frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, um að það kæmi inn sem breytingartillaga við annað frumvarp. Því var andmælt af minni hlutanum enda um allsendis óskyld mál að ræða. Því var það svo að minni hlutinn sagði að það ætti að greiða fyrir því að hæstv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar flytti þetta mál hér sem varðar ákveðnar ívilnandi lagfæringar og breytingar á lögum um kaup á fyrstu fasteign.

Við þingmenn Vinstri grænna munum sitja hjá við afgreiðslu málsins fyrst og fremst vegna þess að við lögðumst gegn þessum lögum upphaflega þegar þau voru samþykkt hér á þingi og teljum þau mismuna mjög fólki eftir tekjustöðu hvað varðar stuðning hins opinbera við kaup á fyrstu fasteign. Við lögðumst því gegn þessum lögum og teljum þau vera mismununartæki, en munum sitja hjá hér því að hér er um að ræða almennar tiltölulega ílvilnandi lagfæringar á þeim lögum.