146. löggjafarþing — 78. fundur,  1. júní 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[01:03]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Stjórnarliðunum þykir óþægilegt þegar við köllum fjármálaáætlunina sveltistefnu, enda er sannleikurinn oft sár. En hvað er hægt að kalla þetta annað? Dæmin eru mýmörg. Mér þótti t.d. ekki mikið til síðustu ríkisstjórnar koma en hún hafði þó þann sóma til að bera að leggja aðeins 0,5% aðhaldskröfu á menntakerfið. Sú krafa er hækkuð upp í 2% í tíð núverandi ríkisstjórnar. Kann hæstv. menntamálaráðherra ekki að meta menntakerfið? Vill hann skera það við nögl? Vill hann svelta það? Er hann upptekinn af Smáþjóðaleikunum, að sprikla í sólinni, frekar en að verja skólana fyrir því sem verður blóðugur niðurskurður ef þessi rammi er látinn halda sér? Og hann mun halda, ef eitthvað er að marka hæstv. fjármálaráðherra. Hann mun halda. Og þá verða öll fögur fyrirheit stjórnarliða um að þetta sé bara eitthvað svona sirka og leiðarvísir og sjáum bara hvað gerist. (Forseti hringir.) Þá fara þau fögru fyrirheit fyrir lítið.