146. löggjafarþing — 78. fundur,  1. júní 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[01:04]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er sorglegt að eftir að hafa eytt öllum þessum pappír í að fjalla um þessa fjármálaáætlun mun hún renna í gegn óbreytt. Það er eins og stjórnarliðar búist við því að það verði einhvern veginn hægt að laga hana þegar líður á haustið. Að við getum bara fiffað hana aðeins til í fjárlögum. En ég held einmitt að þau skilji ekki um hvað fjármálaáætlun á að snúast. Ég held að það vanti alveg grundvallarskilning hjá stjórnarmeirihlutanum um hvað opinber fjármál fjalla um. Áætlunin rammar inn fjárlögin. Þau geta ekki lagað hlutina þegar þar að kemur bara af því að þau vilja það. — Eða jú, þau geta það. Þau gerðu það núna áðan varðandi Vaðlaheiðargöng. Við erum að fara að greiða atkvæði um þessa tillögu hérna, ekki tillögu næsta árs. Við ætlum að taka afstöðu til þessarar tillögu hérna, ekki tillögunnar sem kemur kannski á næsta ári. Við þurfum að fara að skilja það hvenær við tökum ákvörðun um hvað, hvenær og hvernig. (Forseti hringir.) Það er þessi tillaga hér, ekki tillaga næsta árs, sem við erum að greiða atkvæði um.