146. löggjafarþing — 78. fundur,  1. júní 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[01:06]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Sú fjármálaáætlun sem við göngum nú til atkvæðagreiðslu um er að mörgu leyti merkileg. Það er alveg ljóst að við erum að fara út á ystu brún þegar kemur að útgjöldum, ólíkt því sem margir hér í þingsal tala um. Við erum að taka ákvörðun um að útgjöld árið 2022 verði 83 milljörðum króna hærri en á þessu ári að raunvirði. Það er það sem verið er að tala um. Það eru fyrirheit. Verið er að auka útgjöld til heilbrigðismála meira en áður. Þau verða 34 milljörðum meiri árið 2022 en í ár. Og svo tala menn eins og verið sé að boða einhvern blóðugan niðurskurð. Það er þvert á móti. (Gripið fram í.) Við ætlumst hins vegar til þess (Forseti hringir.) að sumarið og haustið séu notuð til þess að fara mjög vandlega og ítarlega yfir þær ábendingar sem meiri hluti fjárlaganefndar vann með mjög vönduðum hætti. Það eru skilaboðin úr þessum sal.