146. löggjafarþing — 78. fundur,  1. júní 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[01:08]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það er ekki lítil ábyrgð sem felst í þessu plaggi . Í því er um að ræða grundvallarsýn á pólitíska stefnumótun um hvernig pólitík á að ríkja hér næstu fimm árin varðandi öflun fjármuna í ríkissjóð og dreifingu þeirra. Í þessari áætlun er skortur á tölulegum greiningum til grundvallar, óvissa um efnahagslegar forsendur, skortur á samráði og greiningu á skattbreytingum. En mesti og versti skorturinn er skorturinn á fjármagni til nauðsynlegrar uppbyggingar menntakerfisins, heilbrigðiskerfisins, til þróunarmála og til samgöngukerfisins sem hér var lofað með fögrum orðum í aðdraganda kosninga. Hvernig við sem samfélag ákveðum að haga fjármálum okkar er um leið ákvörðun um hvernig samfélag við viljum byggja upp. Við í Vinstri grænum viljum að markmið og tilgangur ríkisfjármála sé að tryggja öllum tækifæri til að njóta sín í samfélaginu og að öllum séu tryggð mannsæmandi kjör. Ég harma þá sorglegu (Forseti hringir.) pólitík sem hér er boðuð til næstu fimm ára í boði ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Ég leggst gegn þessari fjármálaáætlun og gegn þeirri pólitík sem þar ríkir.