146. löggjafarþing — 78. fundur,  1. júní 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[01:18]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það er mikilvægt að halda því til haga að fjármálaráð gaf þessari ríkisfjármálaáætlun falleinkunn. Hér hefur komið fram að samneyslan hefur ekki verið eins lág í 25 ár og þessi áætlun boðar. Það er ágreiningur við sveitarfélögin um mjög mikilvægan þátt í þessu þar sem þau eiga að bera sinn hluta í opinberum fjármálum. Hér er boðið upp á stíft aðhald, ekki bara með því að auka aðhaldskröfu á hvern einasta málaflokk heldur líka í niðurgreiðslu skulda umfram það sem þörf er á. Áætlunin er ekki fjármögnuð í ljósi tillögu meiri hlutans í fjárlaganefnd a.m.k. ef hún gengur eftir.

Þegar við erum með tíma langrar hagsveiflu eins og hér hefur verið og gert er ráð fyrir spyr maður sig auðvitað: Hvenær er tími til þess að gera vel við þá sem minna mega sín? Það er líka ámælisvert að vera að ýta grundvallaratriðum ríkisfjármálaáætlunar inn í haustið eins og hér er verið að gera og ekki að takast á við þær athugasemdir sem fram hafa komið. Það er óásættanlegt.