146. löggjafarþing — 78. fundur,  1. júní 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[01:43]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við styðjum þessa tillögu Samfylkingarinnar. Hér hefur verið gumað af mikilli uppbyggingu en þegar við horfum á raunverulegan rekstur háskólanna er engin aukning á næsta ári, rétt rúmlega 2% árið 2019 miðað við fjárveitingar yfirstandandi árs. Það er því alveg óralangt frá því að við náum markmiðum Vísinda- og tækniráðs sem það setti um að fjármögnun háskólakerfisins yrði að minnsta kosti sambærileg við meðaltal OECD, og síðar Norðurlandanna. Við höfum rætt töluvert um framhaldsskólana hér. Fjármagnið sem lofað var af hálfu sjálfstæðisráðherra að yrði áfram inni í kerfinu vegna styttingar námsins, verður það ekki. Það loforð er svikið. Um það bil 1.700 milljónir eru skornar niður þar á tímabilinu. Ekki er gert ráð fyrir neinni uppbyggingu til handa Listaháskólanum sem er í heilsuspillandi húsnæði. Er þetta framtíðarsýn sem við viljum bera á borð hér fyrir unga fólkið okkar? Ég held ekki, virðulegi forseti.