146. löggjafarþing — 78. fundur,  1. júní 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[01:47]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það hefur engum dulist akkúrat þetta: Það eru engan veginn ásættanleg framlög sem hér eru borin á borð í heilbrigðisþjónustuna. Þegar búið er að flokka og sundurgreina upphæðirnar eru þetta í kringum 338 milljónir í raunaukningu á árinu 2018 til almenns rekstrar — 0,4%, það er allt og sumt. En það er ekki bara hjá Landspítalanum – háskólasjúkrahúsi sem vantar fjármuni til rekstrar, tækjakaupa og annars stofnkostnaðar, það er til dæmis líka hjá Sjúkrahúsinu á Akureyri. Þar vantar tugi milljóna og þar er ekki gert ráð fyrir legudeildinni fyrr en alveg í blárestina. Það er ekki ásættanlegt á tímum mikils hagvaxtar að þetta sé svona. Þetta er í engum takti við fjölgun sjúklinga og þetta þýðir raunverulega niðurskurð til framtíðar. En á sama tíma er gælt við einkavæðingarblæti hægri stjórnarinnar.