146. löggjafarþing — 78. fundur,  1. júní 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[01:49]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni, það er smánarlegt sem hér er verið að bera á borð. Hér er verið að bera það á borð fyrir okkur að í þessum málaflokki sé gert ráð fyrir fækkun öryrkja í gegnum starfsgetumat. Það er mjög varhugavert að ætla að innleiða starfsgetumat áður en kannað hefur verið til hlítar hverjar afleiðingar þess gætu orðið fyrir þann hóp sem verður undir slíkt seldur. Kjör örorkulífeyrisþega eru ömurleg eins og við vitum og ekki skánuðu þau með aðgerðum síðustu ríkisstjórnar. Ekki stendur til að gera breytingar á réttindum örorkulífeyrisþega í almannatryggingakerfinu til samræmis við þær breytingar sem gerðar hafa verið á réttindum ellilífeyrisþega, ekki fyrr en á árinu 2019. Það þýðir að öryrkjar búa áfram við þetta flókna kerfi, með krónu á móti krónu skerðingu, sem kemur afar illa við þann hóp sem hvað verst stendur. Síðan á að lögfesta NPA. Það reyndar bíður til haustins. En það breytir því ekki að í ríkisfjármálaáætlun er ekki gert ráð fyrir því enn sem komið er að minnsta kosti, og þar er ágreiningur við sveitarfélögin sem tekinn er fram. Það kostar og munar miklu (Forseti hringir.) fyrir sveitarfélögin og gerir í kringum 270 milljónir, sýnist mér.