146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[11:26]
Horfa

Óli Halldórsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Ég lít svo á að það hafi komið nokkuð skýrt svar við þessum spurningum. Svarið er það að þetta lá sem sagt ekki fyrir í upphafi og það hafi ekki verið lagt mat á það í upphafi heldur hafi það gerst eftir á.

Ég velti fyrir mér að ef það er ekki hefðin að þetta sé gert í upphafi, er það þá æskilegt og betra að það sé gert eftir á með þessum hætti með algjörlega nýjum hæfniskröfum og nýjum forsendum sem liggja að baki ákvörðunar? Hefði ekki betur farið á því að hafa þessar hæfniskröfur skýrari í upphafi og minnka kannski þennan rússíbana sem við erum að fara í gegnum hér núna? Þetta er makalaus óvönduð málsmeðferð og gerir lítið úr þessu mikilvæga dómstigi.

Ég ætla bara að segja það að lokum að hafi hæstv. dómsmálaráðherra valdið með þessu skaða fyrir Alþingi eða ráðuneytið þá verður hún sjálf að bera ábyrgð á því og þeir þingmenn sem styðja þessa málsmeðferð.