146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[11:27]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að þetta séu algjörlega tilefnislaus orð af hálfu hv. þingmanns og fráleit. Staðreyndin er auðvitað sú að það hefðu alveg örugglega verið gerðar við það verulegar athugasemdir ef dómsmálaráðherra hefði við upphaflega auglýsingu, sem leggur þetta til grundvallar, farið með einhverjum hætti út fyrri ramma laganna með því að tilgreina með einhverri nákvæmni eftir hvaða þáttum væri verið að leita. Það var verið að auglýsa 15 dómaraembætti við Landsrétt með sama hætti og dómaraembætti hafa alltaf verið auglýst á Íslandi og enginn gert athugasemdir við. Matsnefndin tekur síðan til starfa, metur hluti á sínum forsendum, matsnefndin er reyndar bundin af reglugerð nr. 620/2010 sem gildir um hvaða sjónarmið beri að leggja til grundvallar. Þar eru þau talin upp, ekki tæmandi, en þar eru talin upp atriði sem verði að hafa til hliðsjónar, eins og dómarareynsla, lögmannsreynsla, reynsla af stjórnsýslu og fleiri þættir án þess að það sé fyrir fram mótað í þeim reglum að einhverjir þættir þar eigi að hafa eitthvað tiltekið vægi. Það er ekkert í þessum reglum sem matsnefndin starfar eftir. (Gripið fram í.) Nei, það er bara þannig, hv. þingmaður, að þegar kemur fjölbreyttur hópur umsækjenda í 15 stöður, þá er ekki hægt að njörva það niður fyrir fram hvaða sjónarmið verða lögð til grundvallar umfram það sem reglurnar kveða á um að þeir sem eiga að vera metnir hæfastir þurfa að hafa reynslu af tilteknum sviðum sem eru tilgreind í þessum reglum, eins og dómarareynsla, reynsla af lögmannsstörfum, reynsla af stjórnsýslu, eins og fræðistörf og kennsla, og menntun. Þetta eru fjölmörg atriði sem þarna eru talin upp (Forseti hringir.) og ráðherra er ekki bundinn af öðru en þeim almennu sjónarmiðum.