146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[11:29]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég vildi minna hv. þingmann á stjórnarsáttmálann þar sem segir:

„Unnið verður að því að byggja upp traust á grunnstoðum samfélagsins, meðal annars Alþingi og dómstólum.“

Nú er þetta þannig komið að þeir sem komu fyrir nefndina segja að þetta ferli, ef málið fer fram sem horfir, gæti það grafið undan trausti til dómstólanna. Eins og þetta hefur verið keyrt í gegnum þingið, kom fram fyrir tveimur dögum, í fyrradag, og keyrt í gegn — við þurftum að hóta málþófi í gær til að fá þetta á dagskrá hérna í dagsbirtu. Forseti Alþingis þurfti að beygja sig undir það að ná ekki sínum markmiðum um að klára á starfsáætlun. Forsætisráðherra landsins var ræstur út og sagði: Ég styð dómsmálaráðherra í þessu máli.

Þetta er ekki fallið til að auka traust á Alþingi. Þetta er ekki fallið til að auka traust á dómstólum. Því fer fjarri. Þetta er gríðarleg vantraustsyfirlýsing á dómskerfi landsins. En það virðist vera alveg ljóst að það á að keyra þetta í gegn. En þá er þingið ekkert búið og þingið hefur heimildir. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur heimildir til þess að kanna ákvarðanir og verklag ráðherra sem eftirlitshlutverk Alþingis. Það þarf ekki nema þrjá í nefndinni til að knýja það fram, kalla fyrir ráðherra, hafa fundina opna og rannsaka þetta niður í kjölinn og ég spyr hv. þingmann, sem mun þurfa að sitja í nefndinni af því að Brynjar Níelsson er óhæfur í málinu (Gripið fram í: Vanhæfur.) — vanhæfur, afsakið — hvort hann muni ekki taka þátt í að þetta verði rannsakað ofan í kjölinn.