146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[11:58]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eitt atriði eða tvö sem ég vildi gera athugasemdir við eða ræða í ræðu hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur. Í fyrsta lagi vil ég kannski taka það fram að sá tímarammi sem var til afgreiðslu málsins hér á þingi og er til afgreiðslu málsins hér á þingi hefur legið fyrir um nokkurt skeið. Það hefur alltaf legið fyrir að ráðherra hefði aldrei meira en tvær vikur frá því dómnefnd skilar af sér til þess að skila sinni tillögu til þingsins. Það er bundið í lögum frá 2010. Það hefur jafnframt legið lengi fyrir hvenær þinglok voru áformuð. Eins og ég kom að í ræðu minni áðan þá hefur um allnokkurt skeið legið fyrir og verið á borðum þingflokksformanna og formanna stjórnmálaflokkanna áætlun um það hvernig málsmeðferð yrði háttað í megindráttum. Frá því hefur ekki verið vikið nema hvað nefndarfundir í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, gestakomur og annað þess háttar urðu fleiri en útlit var fyrir. Bara þannig að það liggi fyrir að það var ekkert nýtt sem menn stóðu frammi fyrir hér á mánudag hver tímaramminn væri eða hvernig hugsunin væri af hálfu þingsins að fást við þetta verkefni.