146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[12:03]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt, starfsáætlun er bara áætlun. Það sem ég var að benda á er að það átti engum að koma á óvart að þetta mál yrði unnið á síðustu dögum þingsins á sama tíma og öll önnur mál væru til afgreiðslu. Það lá alltaf fyrir, alla vega um nokkurra daga skeið, kannski einhverra vikna, þó að það væri ekki hægt að segja til um það nákvæmlega hvaða dagafjöldi væri þar undir, að þetta mál myndi koma hér inn í lok þingsins á sömu dögum og fjöldi annarra mála yrði til afgreiðslu. Ég er bara að segja að menn vissu af því fyrir fram og gengu að því með opnum augum og raunar án þess að athugasemdir kæmu fram fyrir fram að þetta yrði þröngur tímarammi í þessu sambandi. (JÞÓ: Ekki tveir dagar, tvær vikur.)

Ég velti hins vegar fyrir mér hvort það megi skilja orð hv. þingmanns þannig að ef tillaga dómnefndarinnar hefði komið hér óbreytt inn frá ráðherra þá hefði málið runnið í gegnum þingið með greiðari hætti og með meiri samstöðu.