146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[12:08]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Málskilningur hv. þingmanns vekur athygli mína því það að sagt sé í nefndaráliti minni hlutans að ekki sé sýnt að ráðherra hafi sinnt rannsóknarskyldu sinni er ekki fullyrðing um að ráðherra hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni, svo ég útskýri þetta tungutak fyrir hv. þingmanni. Hins vegar getur minni hlutinn ekki verið sannfærður um að það hafi verið gert. Það er það sem þetta orðalag þýðir.

Og af hverju er minni hlutinn ekki sannfærður um það, frú forseti? Jú, við höfum hér 117 blaðsíðna matsskýrslu dómnefndar þar sem, eins og ég fór yfir áðan í ræðu minni, umsækjendum er raðað í röð út frá einstökum matsþáttum, undir hverjum einasta matsþætti þar sem umsækjendum er raðað út frá dómarareynslu, út frá lögmannsreynslu, út frá menntun, út frá fræðistörfum, öðrum störfum, öllu þessu raðað upp.

Rökstuðningur ráðherra var fyrst á almennum nótum þar sem reifuð voru almenn sjónarmið um að dómarareynsla myndi vera látin vega þyngra að mati ráðherra og þess vegna yrðu tilteknir fjórir einstaklingar hluti af tillögu ráðherra og þar af leiðandi ekki tilteknir aðrir fjórir. Síðari rökstuðningur ráðherra er upp á fjórar blaðsíður þar sem farið er yfir dómarareynslu þessara fjögurra umsækjenda, sömu gögn og koma fyrir í umsögn dómnefndar, en það sem við spyrjum er: Hvað ræður samanburði á milli einstakra umsækjenda þannig að tilteknir umsækjendur eru þá metnir minna hæfir í heild? Sérstaklega í ljósi þess sem ég nefndi áðan, þar sem við erum með athugasemdir frá lögmanninum Jóhannesi Karli Sveinssyni þar sem spurt er einfaldra spurninga: Af hverju er umsækjandi í 7. sæti hjá tillögu dómnefndar ekki hluti af tillögu ráðherra þrátt fyrir að miðað sé við dómarareynslu því að neðar á listanum eru aðrir með minni dómarareynslu? Þetta eru spurningar sem við höfum spurt í nefndinni og ekki talið sýnt að ráðherra hafi uppfyllt rannsóknarskyldu sína hvað þessi mál varðar.(Forseti hringir.) Við treystum okkur hins vegar ekki til að fullyrða eitt né neitt um það, af því að okkur, eins og ég hef farið yfir allítarlega, (Forseti hringir.) gafst ekki sérstaklega mikill tími til að fara yfir öll gögn málsins í meðferð nefndarinnar.