146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[12:12]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður kemur hingað og segir að ég fullyrði að rannsóknarskyldu hafi ekki verið sinnt. Það hef ég ekki sagt. Hv. þingmaður verður að gæta orða sinna hér, að gera ekki mér eða öðrum þeim sem rita undir álit minni hlutans upp orð. Ég sagði í upphafi míns máls að ég teldi að Alþingi ætti að snúast um að vera málstofa þar sem við hlustum á rök og hv. þingmaður verður bara að gera svo vel að hafa rétt eftir þeim þingmönnum sem hann á orðastað við. Það er ekki boðlegt að svona málflutningur sé viðhafður þegar um er að ræða jafn mikilvægt mál og þetta, svo ég segi það bara algjörlega skýrt.

Hér fengum við rökstuðning sem farið er ítarlega yfir í nefndaráliti minni hlutans og hefði verið farið ítarlegar yfir ef hv. nefndarmönnum hefði gefist tími til þess. Rökstuðningur ráðherra upp á eina og hálfa blaðsíðu með almennum hætti, ekki um hvern og einn umsækjanda, er það sem hæstv. ráðherra leggur fram með tillögu sinni í upphafi. Eftir athugasemdir sem koma fram á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar kemur fjögurra blaðsíðna rökstuðningur. Við gerum eðlilega athugasemd við það að þegar ráðherra tekur sína ákvörðun þá hlýtur allur rökstuðningur að liggja fyrir frá upphafi. Þegar nánar er farið út í það að spyrja eftir því hvaða sérfræðiþekking hafi verið höfð og hvort hún hafi verið sambærileg við sérfræðiþekkingu dómnefndar, þá er vísað til þess að ekki sé verið að afla nýrra upplýsinga frá því sem dómnefnd hafi lagt fram. En eigi að síður voru í fyrra bréfi gerðar athugasemdir við mat dómnefndar, aðferðafræði dómnefndar og niðurstöðu dómnefndar. Við bendum einfaldlega á að við í minni hlutanum erum ekki sannfærð um það, við teljum ekki sýnt að þessi rannsóknarskylda hafi verið uppfyllt. Við erum ekki að segja að hún hafi ekki verið uppfyllt, svo ég útskýri það enn einu sinni fyrir hv. þingmanni, heldur getum við ekki verið viss, út frá þeirri umfjöllun sem farið hefur fram í nefndinni. Ég vona að hv. þingmaður hafi heyrt þetta í þetta sinn.