146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[12:33]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Eðli máls samkvæmt tel ég að þingmenn ættu að reyna að temja sér að vanda orð sín í þessari umræðu allri, á öllum stigum málsins, þar sem það er vandmeðfarið varðandi þrígreiningu ríkisvalds um hvaða mál er hér til grundvallar. Ég tek undir með hv. þingmanni að traust til dómstóla, og allra greina ríkisvaldsins ef út í það er farið, skiptir ofboðslega miklu máli.

Ég tek undir yfirferð hv. þm. Birgis Ármannssonar um hvar meiri hlutinn í nefndinni stendur gagnvart því að ráðherra hafi farið vel með þetta vandmeðfarna vald, en ég get ekki orða bundist yfir orðum hv. þingmanns, hvernig hann leyfir sér að tala í þessu máli. (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) Hann talar um freistnivanda. Ég ætla að vona að freistnivandinn sé ekki slíkur í þessu máli, þessu pólitíska máli sem það er greinilega orðið hér, sem það má alls ekki verða, að hann fari svona langt frá réttlætisbrautinni (Forseti hringir.) sem hann svo oft hefur markað sér.

(Forseti (JSE): Forseti vill beina því til þingmanna að virða ræðutíma.)