146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[12:34]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Freistnivandinn er bara til staðar. Það er þess vegna sem við erum aðilar að risastórum, alþjóðlegum sáttmálum gegn spillingu og Evrópuráðsbatteríinu sem vinnur að því að innleiða siðareglur og þrýsta á að dómstólar og þingmenn samþykki siðareglur. Hv. þingmaður hefur skrifað undir siðareglur Alþingis, geri ég ráð fyrir. Í þeim er nákvæmlega talað um hagsmunaárekstra. Það er freistnivandi til staðar, að ráðherra skipi gerræðislega. Það er líka sá freistnivandi til staðar að nefndin stilli hlutum þannig upp að það sé gerræðislegt og hefur ráðherra bent á ákveðna þætti sem hefðu mátt betur fara og eru ekki hafnir yfir vafa. Freistnivandinn er þarna til staðar. Þess vegna erum við hérna á Alþingi. Þess vegna var þetta sett upp þannig að Alþingi þyrfti að koma að þessu máli. Við erum varnaglinn. Það var það sem sérfræðingarnir (Forseti hringir.) sögðu okkur í nefndinni. Varnagli til hvers? Jú, svo ég lesi úr stjórnarsáttmálanum, með leyfi forseta:

„Unnið verður að því að byggja upp traust á grunnstoðum samfélagsins, meðal annars Alþingi og dómstólum.“

Það er það sem við getum gert og við höfum tíma til 1. júlí. Eigum við ekki að gera það?