146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[12:40]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Eins og þingmaðurinn vitnar í nefndarálitið: Ekki er sýnt að ráðherra hafi uppfyllt rannsóknarskyldu sína. Það er ekki sýnt. Það er ekki sýnt fyrir nefndinni að ráðherra hafi á fullnægjandi hátt rökstutt það að fara gegn áliti dómnefndar, velja fjóra aðra í stað þeirra sem dómnefndin valdi. Það er ekki sýnt. Það kom fram hjá nefndinni og við spurðum ítrekað sérfræðinganna og þeir bentu m.a. á dóminn gegn Árna M. Mathiesen. Kannski á hann bara ekki við. En þau segja að hann eigi enn þá við samkvæmt lögum. Kannski er þessu öðruvísi háttað. Það er ekki sýnt, það er ekki ljóst. Við höfum haft tvo daga. Ráðherra hafði tvær vikur.

Það er ekki sýnt. Það er ekki ljóst. Við erum að kalla eftir lengri tíma til þess að það sé sýnt og ljóst. Við erum hvort eð er farin fram yfir starfsáætlun Alþingis og það er ítrekað farið tveimur vikum og lengur fram yfir starfsáætlun Alþingis. Er þetta ekki það mikilvægt, til að tryggja traust á dómstólum og Alþingi landsins, að við getum tekið okkur lengri tíma í að vinna þetta? Við höfum til 1. júlí. Hvað segir hv. þingmaður um það?