146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[12:42]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekki lögfræðingur. Hv. þingmaður er lögfræðingur. En það komu fyrir nefndina sérfræðingar í stjórnsýslurétti. Eftir samtal við þá, þau gögn sem þau vísuðu til á þessum mjög skamma tíma, við vorum að hlaupa á tveim dögum, málið kom til okkar í fyrradag, hlaupa og ítrekað kalla eftir fundum í nefndinni til að reyna að fara yfir málið. Hv. þingmaður spyr: Hvað vantar upp á? Nákvæmlega. Hvað vantar upp á? Það er ekki sýnt að ráðherra hafi uppfyllt skyldu sína. Ekki sýnt að ráðherra hafi uppfyllt það. Það er vísað í dóminn og í dómnum frá Árna Mathiesen — þingmaðurinn hlær? Menn verða að átta sig á því að á Alþingi veljast almennir borgarar sem eru ekki allir lögmenn og við þurfum fokking tíma til þess að geta unnið þetta mál. (Forseti hringir.)

Ég biðst velvirðingar.

(Forseti (JSE): Forseti vill beina því til þingmanna að gæta orða sinna í ræðustól Alþingis.)

Já. Ég skal gera það. Ég missti út úr mér þetta orð.

En við erum almennir borgarar sem þurfum tíma til að vinna þetta mál og þegar sérfræðingar segja okkur að þetta sé ekki ljóst og benda okkur á dómafordæmi sem sýna að ráðherra gæti verið að brjóta lög við skipan dómara þá þurfum við tíma. Við höfum til 1. júlí (Forseti hringir.) til þess að gera það.