146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[13:33]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst þetta mál of alvarlegt til að ég nenni að elta hv. þingmann í einhverjar háfleygar sniðugar líkingar til að víkja sér undan málinu. Ég lít ekki á Alþingi sem stimpilstofnun. Það getur vel verið að hv. þingmaður geri það. Ég deili þeirri skoðun ekki.

Þá langar mig að spyrja hv. þingmann beint og bið hann í einlægni að svara mér, ekki fara í háfleygar líkingar og búa til eitthvert dæmi: Hvað er að því að gefa meiri tíma til að málsmeðferðin verði faglegri ef það myndi til dæmis verða til þess að gagnrýnisröddum og ásökunum um að þetta væri ekki nógu fagleg málsmeðferð myndi fækka? Það getur vel verið að hv. þingmanni finnist þeim tíma ekki vel varið eins og hann kom inn á í ræðu sinni, en hvað er að því að við reynum að ná sátt um þetta nýja dómstig í landinu? Hvað myndi svo hræðilegt gerast í lífi hv. þingmanns og stimpilhlutverki hans ef við gæfum þessu örfáar vikur í viðbót til að vinna málið betur? Um það snýst málið, hv. þingmaður, ekki hvaða nöfn eru á þessum lista. Ég veit ekki einu sinni hvað nöfn eru á þessum lista. Þetta snýst um faglega málsmeðferð, þetta er ekki boðlegur málflutningur, hv. þingmaður.