146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[13:35]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er fínt fyrirkomulag sem hv. þingmaður setur hér upp. Framsetningin er samt mjög góð afvegaleiðing frá því sem skiptir máli hérna. Hv. þingmaður segir málið snúast um afskipti þingsins af skipan dómara, en ég frábið mér þann málflutning því að þær ástæður sem ég hef er að mótmæla framgöngu ráðherra. Alþingi hefur nefnilega eftirlitshlutverk með gjörðum og ákvörðunum ráðherra og hér er ákvörðun ráðherra til umfjöllunar. Þá ákvörðun vil ég rýna og stunda mitt eftirlitshlutverk gagnvart. Hv. þingmaður nefnir að hann vilji ekki hafa þetta vald og það finnst mér dálítið undarlegt. Vill hann þá afsala sér eftirlitshlutverki þingsins gagnvart ráðherrum?

Nú býður stjórnarandstaðan upp á það ferli sem hv. þingmaður leggur upp með: Matsnefnd kemur með lista, alveg eins og í dæminu sem hv. þingmaður kom með, ráðherra kemur með aðra tillögu sem hann tilkynnir þinginu um og Alþingi tekur ákvörðun um vantraust eða ekki. Frávísunartillagan fjallar um það. (Forseti hringir.) Nú getur hv. þingmaður losnað undan þessu valdi sem hann vill ekki hafa með því að vísa einfaldlega málinu frá.