146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[13:40]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Við 1. umr. í andsvari hæstv. dómsmálaráðherra við samflokksmann hv. þingmanns, hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson, um breytingu á lögum um dómstóla, um að hæfnisnefnd ætti að horfa til kynjasjónarmiða, kom fram það sjónarmið hennar að mikilvægt væri að til þessara dómarastarfa veldist fólk með ólíkan bakgrunn úr heimi lögfræðinnar, ekki bara núverandi embættisdómarar eða menn sem unnið hefðu við dómstóla, heldur líka fólk úr alls kyns öðrum lögfræðistörfum; úr fræðasamfélaginu, sýslumenn og fleiri. Nú hefur dómsmálaráðherra vald til að breyta vinnureglum hæfnisnefndarinnar. Hún hefur vald til að hafa áhrif á starfsreglur nefndarinnar áður en nefndin gerir matið. Til þess hefur ráðherra vald. Hún hefur líka ítrekað lýst yfir að hún trúi ekki á kynjasjónarmið. Þetta eru þau málefnalegu sjónarmið sem hv. þingmaður tekur fram að liggi til grundvallar mati ráðherra. Þegar ráðherra hefur sjálf talað gegn þessum sjónarmiðum hér áður (Forseti hringir.) og hún hefur vald til þess að breyta þeim í mati dómnefndarinnar, hvernig getur hv. þingmaður treyst því að þetta séu sjónarmiðin sem ráði för hjá hæstv. ráðherra? (JÞÓ: Nákvæmlega.) (Gripið fram í: Heyr, heyr.)