146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[13:48]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður hefur verið kosinn á Alþingi og fer, eins og hann nefnir, með eftirlitsvald. Eitt af eftirlitshlutverkum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, fyrst þingmaðurinn hefur ákveðið að fara inn í það mál fyrir flokk sinn, er það að kanna ákvarðanir og verklag ráðherra ef tilefni er til í samræmi við eftirlitshlutverk Alþingis. Þingmaðurinn vill að við klárum þetta mál þó að við höfum tíma til 1. júlí. Það sé mikilvægara að klára þetta mál fljótt þó að við höfum tíma til 1. júlí, þó að ákvörðunin sem hann leggur til að sé tekin sé óafturkræf. Hún er óafturkræf. Hann leggur til að ákvörðunin sé tekin þó að hún sé óafturkræf, áður en við getum sinnt eftirlitshlutverki Alþingis, sem þingmaður gegnir, til að kanna hvort það sé hafið yfir vafa að ráðherra hafi farið að lögum. Ef það er ekki hafið yfir vafa að ráðherra hafi farið að lögum og reglum í ákvörðunum sínum og verklagi — en það er það sem við erum að kalla eftir. Við erum ekki að kalla eftir því að listinn sé svona eða hinsegin. Við erum að kalla eftir að það sé hafið yfir vafa að ákvarðanir og verklag ráðherra sé samkvæmt lögum og reglum og dómafordæmum. Við höfum tækifæri til þess. (Forseti hringir.) Hvort er mikilvægara?