146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[13:49]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (andsvar):

Frú forseti. Bara svo því sé til haga haldið þá er það ekki þannig að nefndin hafi ávallt í störfum sínum skilað númeruðum lista þar sem munaði einhverjum aukastöfum á hæfi fólks. Ef menn skoða álit hæfnisnefndar hafa menn oft raðað lista með þeim hætti að einhver einn þótti hæfastur, einhverjir sem komu þar á eftir þóttu næsthæfastir og síðan kom eitthvert fólk þar á eftir. Það er alls ekki þannig að ráðherrann hafi getað gefið sér að það kæmi 15 manna listi sem hún gæti ekki hvikað frá með neinum hætti. Ráðherra gat ekki gefið sér það út frá fyrri reynslu af málinu. (Gripið fram í.) Hún gat ekki gefið sér það. Og ég held að það hafi reyndar komið ráðherra eilítið á óvart. Það kom mér líka á óvart. Ég hélt að ráðherra fengi einhvern forgangslista sem hún gæti síðan valið af og þannig t.d. tekið tillit til kynjasjónarmiða, sem vitað er að margir hefðu áhuga á að litið yrði til. Ástæðan fyrir því að mér þykir allt í lagi að stíga þetta skref er, og ekki skal gleyma því, að þetta er allt saman hæft fólk. Allt saman dómarar sem metnir hafa verið hæfir til að gegna þeirri stöðu (Forseti hringir.) að vera dómarar í Landsrétti. Þess vegna held ég að hin óafturkræfu spjöll yrðu ekki það óafturkræf vegna þess að þetta er allt saman hæft fólk.