146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[14:23]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er kannski ekki til mikils að vera að endurtaka sig mikið hér þar sem margir eru á mælendaskrá og vilja skiljanlega fá að taka til máls.

Það er algjörlega sjálfsagt og eðlilegt að fulltrúar í nefndinni séu ósammála um hvort mat ráðherra og rökstuðningur þar um sé nægjanlegur fyrir þingmenn í því vandmeðfarna hlutverki sem þingmenn eru í, miðað við þrígreiningu ríkisvalds og mikilvægi sjálfstæðis dómara og þær stjórnsýslureglur sem framkvæmdarvaldið lýtur að. Í öllu þessu máli tel ég sem nefndarmaður í nefndinni rökstuðning ráðherra viðunandi. Mér finnst matið bæði almennt og sértækt og rökstuðningur þar um viðunandi. Ég tel að þingið geti vel við unað. Alla jafna hvað sem verður til framtíðar, eins og komið hefur fram í dag, að það er til mikils að ræða almennt hvernig við höfum lagaumhverfi okkar til framtíðar til að þetta sé hafið yfir vafa. Við sjáum það hér í dag að þetta er flókið viðfangsefni. Þetta er vandmeðfarið. Það skiptir svo miklu máli að við öll ræðum það, þó að við séum mögulega kannski ósammála í einstaka atriðum um hvort ráðherra sé hafin í þessu algjörlega yfir vafa eða ekki sinnt sínu. Mér finnst það, öðrum finnst það ekki. Reynum í öllum þeim málflutningi að hafa það sjónarmið sem leiðarljós að við erum hér eftirlitsaðili gagnvart ákvörðun hjá framkvæmdarvaldinu og ráðherra. Það sem öllu skiptir er að sjálfstæði dómstóla verði aldrei sett (Forseti hringir.) í efa. Það er mikilvægasta verkefni okkar hér.