146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[15:30]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf) (andsvar):

Herra forseti. Ég get tekið undir það með hv. þingmanni að við erum ekki sammála um mat á þessari röksemdafærslu. Ég held að við séum þó sammála um að bæði tillögulisti matsnefndarinnar og sá listi sem hæstv. ráðherra lagði fyrir forseta Alþingis og er hérna til umræðu hjá okkur til staðfestingar eða synjunar er listi af einstaklingum sem hafa verið taldir metnir hæfir til starfanna. Það er ljóst að það er ágreiningur og það er merkilegt að hann er skýr pólitískur ágreiningur á milli meiri hluta og minni hluta á Alþingi um það hvort rökstuðningurinn sé nógu góður eða ekki. Það þykir mér miður og auðvitað hefði það verið betra veganesti fyrir nýjan Landsrétt að það hefði ríkt fullkomin sátt um þessi vinnubrögð, en því miður þá sé ég ekki að hún fæðist hérna í dag.

Ég verð að koma (Forseti hringir.) að seinni hluta spurningarinnar í seinna svari.