146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[16:11]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Það hefur ítrekað komið fram í málflutningi stjórnarliða í þessu máli að þau sjónarmið sem hæstv. ráðherra hafi litið til þegar hún breytti vali valnefndarinnar hafi verið kynjasjónarmið og að hún vildi gefa dómarastörfum aukið vægi. Í því ljósi langar mig að vitna í andsvar hæstv. dómsmálaráðherra við spurningu hv. þm. Jóns Steindórs Valdimarssonar þegar hv. þingmaður spurði hana hvort ekki væri tilefni til þess að líta til jafnréttissjónarmiða við val dómnefndar. Þar kemur fram í svari hæstv. dómsmálaráðherra, með leyfi forseta:

„Virðulegi forseti. Það er auðvitað ákaflega mikilvægt að skipan hins nýja dómstóls takist vel til með hliðsjón af alls kyns sjónarmiðum. Það er mjög mikilvægt að til starfa þar veljist fólk með ólíkan bakgrunn úr heimi lögfræðinnar, ekki bara núverandi embættisdómarar eða menn sem hafa sinnt dómstörfum heldur líka alls kyns öðrum lögfræðistörfum …“

Svo segir hún, með leyfi forseta:

„Ég er ekki talsmaður þess að menn bindi það í lög að velja eigi einstakling eftir kyni fremur en hæfni. Ég hef fulla trú á því að konur jafnt sem karlar uppfylli öll þau hæfisskilyrði sem eðlilegt er að leggja til grundvallar við skipan dómara.“

Af þessu mátti ráða að þetta hafi verið einhver sérstök sjónarmið. Og þegar dómsmálaráðherra var fullkomlega kleift að breyta (Forseti hringir.) matsreglum dómnefndarinnar fyrir matið (Forseti hringir.) en ekki eftir á, af hverju ættum við að trúa því að þetta séu einhver sjónarmið sem gildi hjá henni núna?