146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[17:24]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hér er um mjög stórt mál að ræða þar sem ætlunin er að skipa 15 nýja dómara við nýtt dómstig, nýjan Landsrétt, sem markar tímamót í réttarsögunni sem samstaða var um hér á þingi. Það er lykilatriði að allur málatilbúnaður með þessa skipan sé hafin yfir vafa. Minni hlutinn á Alþingi hefur gert athugasemdir við rökstuðning ráðherra og telur ekki sýnst út frá rökstuðningnum að rannsóknarskylda hafi verið uppfyllt. Þeir sérfræðingar sem beðnir voru um álit á því atriði töldu að þeir hefðu ekki nægjanlegan tíma til að leggja raunverulegt mat á þessi atriði. Þess vegna lögðum við í minni hlutanum til að málinu yrði frestað þannig að ráðherra og þing fengju meiri tíma til að tryggja viðunandi umbúnað málsins. Þess vegna leggjum við til hér á eftir að málinu verði vísað aftur til ríkisstjórnar í sama tilgangi. Verði frávísunartillaga minni hlutans felld munum við Vinstri græn leggjast gegn málinu, því hér er um heildartillögu að ræða. Afstaða okkar felur ekki í sér afstöðu til þeirra einstaklinga sem um ræðir heldur málatilbúnaðarins í heild sinni.