146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[17:26]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Nú er ljóst að ráðherra gerir verulegar breytingar á vali dómnefndar í nýjan dómstól. Alþingi og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur gefist mjög knappur tími til þess að fara yfir málið. Okkur hefur ekki þótt ráðherra færa nógu góð rök fyrir máli sínu sem þarf að vera vandað og hafið yfir allan vafa. Við höfum því lagt til að málinu verði vísað frá, frestað í nokkrar vikur, til að ráðherra geti unnið betur í því og veitt nefndinni betri gögn. Í þessu liggur í raun enginn dómur um þá sem hafa sótt um, en þetta skiptir miklu máli. Hér er um mikilvægan nýjan dómstól að ræða. Það er mikið í húfi fyrir traust dómstóla. Samfylkingin mun greiða atkvæði með frávísunartillögu.