146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[17:35]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég hjó eftir því í orðum hv. þm. Birgittu Jónsdóttur að hún sagði í einni setningu að hér væri ráðherra að velja dómara sem væru henni þóknanlegir, en síðan sagði hún í næstu setningu að ákvörðun Pírata snerist ekki um þetta tiltekna fólk. Ég veit ekki hvort hv. þingmönnum þyki gæta einhverra mótsagna í þessum orðum, en mér þykir það. Þegar maður nefnir það að tilteknir dómarar séu tilteknum ráðherra þóknanlegir (Gripið fram í.) þá gæti það í einhverjum tilfellum þótt varpa rýrð á störf þeirra í framtíðinni. Þannig að ég myndi athuga hvort hv. þingmaður væri til í að endurskoða þennan fyrri part yfirlýsingar sinnar.

Að öðrum kosti hef ég skýrt það í ræðu minni að ég tel að þetta vald og þessi ábyrgð liggi hjá ráðherra og sé eðlilegt að henni sé komið fyrir þar. Ég tel ekki eðlilegt að þingið eigi að hafa afskipti af þessari ákvörðun ráðherra. Ég mun því greiða atkvæði í samræmi við það.