146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[17:36]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ætlum við virkilega að leyfa hæstv. ráðherra að setja þetta fordæmi? Að ráðherra geti gert nákvæmlega það sem henni sýnist þvert á faglegt mat hæfnisnefndar án fullnægjandi rökstuðnings í tímapressu og mikilli andstöðu þingsins, að það sé keyrt í gegn af ríkisstjórn með minni hluta atkvæða á bak við sig. Þetta eru óeðlileg pólitísk afskipti af skipan dómara. Ég segi að sjálfsögðu: Vísum þessu máli aftur til ráðherra, gefum henni tíma til þess að vinna þetta betur, fáum upplýsingarnar sem við þörfnumst til þess að taka upplýsta ákvörðun. Ef einhvern tímann er tilefni til að raunverulega greiða atkvæði eftir eigin sannfæringu, þá er það núna. Flokkslínan á ekkert erindi í þessa atkvæðagreiðslu. Við vorum kosin á þing til þess að gæta að hagsmunum almennings, ekki að hagsmunum Sjálfstæðisflokksins. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)