146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[17:38]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Katrín Jakobsdóttir hefur gert ágætlega grein fyrir afstöðu okkar í Vinstri grænum. Ég kem hingað upp til að lýsa yfir gríðarlegum og einlægum vonbrigðum í þessu máli. Ég hélt að fjöldi nýrra þingmanna sem ásamt mér tóku sæti á þingi eftir kosningar myndi þýða ný og breytt vinnubrögð. Þetta er gríðarlega mikilvægt mál. Það er gríðarlega mikilvægt að um það náist sátt. Ef betri málsmeðferð svarar ekki nema einni spurningu sem út af stendur, þá er til þess vinnandi að gera málsmeðferðina betri. Það er ótrúlega sorglegt að meiri hlutinn skuli ætla að leggja af stað í þetta nýja dómstig sem mun breyta svo miklu í ósátt og í skugga ósáttar og pólitísks afls meiri hlutans, allt til þess að komast undan því að gefa málinu meiri tíma, tíma sem sérfræðingar hafa þó sagt að þurfi til að hægt sé að meta málið á sem faglegastan hátt.