146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[18:05]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Mig langar til að byrja á að þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni kærlega fyrir hans skýru orð um það að hann telji að allir sem hér um ræðir séu hæfir, án undanbragða. Ég held að það skipti miklu máli að hlutir séu orðaðir á þann hátt. Auðvitað er það síðan það sem við erum að greiða atkvæði um, hvort við teljum þennan dómaralista vera þannig að hér ættu að vera dómarar við nýjan Landsrétt. Ég skil að það er borin von að þingmaðurinn muni breyta þessari skoðun sinni, að greiða atkvæði gegn þeim lista. Þá erum við kannski bara aðeins ósammála um hvernig við beitum valdi okkar hér. En mig langaði bara að þakka honum kærlega fyrir þessi mjög svo skýru orð.

Ég hef einhvern tíma rætt um það fyrirkomulag við norræna stjórnskipunarfræðinga hvort það væri heppilegt að Alþingi greiddi atkvæði um skipun dómara með þeim hætti sem við gerum hér. Þeirra ráðleggingar voru ekki á þann veg. Ég vona að þetta sé söguleg stund, (Forseti hringir.) en söguleg stund á þann hátt að hún verði ekki endurtekin.