146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[18:08]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp í tilefni orða hv. þm. Pawels Bartoszeks um hvað við værum að greiða atkvæði um. Ég lít svo á að hér séum við að greiða atkvæði um hvort ástunduð hafi verið fagleg vinnubrögð eða ekki. Það er mín skoðun. Hér kemur hv. þm. Birgir Ármannsson og segir að hann hefði kosið meiri sátt. Hvernig hefði þá verið að taka í útrétta sáttarhönd um að vinna málið aðeins betur? (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Eigum við að fara yfir það um hvað málið snýst? Það snýst ekki um nöfn á lista. Það er verið að biðja um meiri tíma. Biðja um betri vinnu. Ítarlegri rökstuðning. Það er pólitísk ákvörðun að rjúfa þá sátt sem ríkt hefur hingað til um stofnun Landsréttar. Það er pólitísk ákvörðun meiri hlutans að nýta sér pólitískt afl sitt hér inni til að verða ekki við þessum sjálfsögðu og eðlilegu kröfum. Hver getur verið á móti því að vinna mál nógu vel? Hvað er andstæðan (Forseti hringir.) við að vinna mál ekki nógu vel? Hvað er samheiti við að vinna mál ekki nógu vel? Er það ekki fúsk?