146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[18:13]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Ég segi nei við þessu, ekki vegna þess að ég vantreysti þeim einstaklingum sem slíkum. Ég segi nei við þessu vegna þess að ég vantreysti ferlinu og vantreysti hæstv. dómsmálaráðherra.

Þegar við erum að taka ákvarðanir um svona mál verður að vera sátt. Þingið verður að geta komið sér saman um hlutina í góðri sátt. Það hvernig við höfum staðið að þessu í dag og hér síðustu daga hefur kastað rýrð ekki bara á þennan nýja dómstól heldur líka á þingið og ríkisstjórnina. Við munum þurfa að grafa okkur upp úr þeim forarpytti. Það gerist greinilega ekki í dag. Ég segi nei vegna þess að það er það rétta í stöðunni, vegna þess að búið er að eyðileggja það sem hefði annars getað verið mjög gott ferli.