146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[18:15]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Virðulegur forseti. Fyrir þinginu liggur tillaga um 15 dómara. Ég tel það aldrei heppilegt að þingmenn sem starfa við að setja lög séu að hlutast til um hverjir skipi dómstóla sem dæmi eftir þeim lögum. Ég tel það ekki fara í samræmi við þessa niðurstöðu. Því tek ég undir með hv. þm. Pawel (Gripið fram í.) Bartoszek þegar … Gæti ég fengið frið til að gera grein fyrir atkvæði mínu? Því tek ég undir með hv. þm. Pawel Bartoszek þegar ég segi: Ég vona að þetta verði í síðasta skiptið sem þingið hlutast til um það með þessum hætti. Ég tel dómsmálaráðherra bera hina endanlegu ábyrgð í málinu og tel að sú tillaga sem liggur fyrir þinginu sé vel ígrunduð og rökstudd. Því segi ég já.