146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[18:27]
Horfa

Jóna Sólveig Elínardóttir (V):

Hæstv. forseti. Ég geri hér grein fyrir atkvæði mínu og þeirri sannfæringu minni að hér hafi verið vandað til verka, að hér sé um góðan lista að ræða og betri en þann sem hæstv. ráðherra fékk upphaflega í hendurnar, enda uppfyllti sá listi ekki nauðsynleg sjónarmið um jafnræði kynjanna. Hæstv. dómsmálaráðherra hefur sagt að hún telji að jafnréttislög eigi að ná til þessa máls. Ég virði þá afstöðu sem og þá afstöðu að dómarareynsla eigi að vega þyngra en hún gerði á upphaflegum lista sem hæstv. ráðherra fékk í hendurnar. Þar er ég sammála hæstv. ráðherra. Þegar hæstv. ráðherra fékk tillögu frá dómnefnd sem mætti ekki þessum sjónarmiðum sendi hún þann lista til baka og til endurskoðunar. Ráðherra fékk listann óbreyttan og því ófullnægjandi til baka. Í kjölfarið ákvað hæstv. ráðherra að nýta sér það svigrúm sem hún hefur lögum samkvæmt til að gera nauðsynlegar breytingar. Breytingar þær sem ráðherrann gerir verður til þess að listinn mætir hvoru tveggja, skilyrðum um jafnræði kynjanna og sjónarmiðum um dómarareynslu (Forseti hringir.) auk þess sem allir dómararnir hafa verið metnir hæfir. Þetta eru góð vinnubrögð. Sá rökstuðningur sem hæstv. ráðherra hefur lagt fram er góður og ég fellst á hann. Samkvæmt minni bestu sannfæringu og samvisku. Ég segi því já.