147. löggjafarþing — 2. fundur,  13. sept. 2017.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[19:50]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Góðir Íslendingar. Hæstv. forsætisráðherra ræddi í ræðu sinni fyrst og fremst gott efnahagsástand og um margt eru hagvísarnir góðir. En það má líka færa rök fyrir því að ríkidæmi okkar sé í raun mun óáþreifanlegra en það sem forsætisráðherrann fór yfir í sinni ræðu.

Við eigum tungumál, tungumál sem við höfum notað til að skrifa hetjusögur, ástarljóð, stjórnmálagreinar, glæpasögur, rapptexta og veggjakrot; tungumál sem við höfum notað til að tala saman um allt og ekkert, til að skilgreina rétt og rangt, gott og vont, hvernig okkur líður, allt sem er flókið og allt sem við vitum ekki alveg hvað okkur finnst um. Þetta tungumál eigum við og það tengir okkur við fortíð okkar og rætur, allt frá landnámi. Þetta tungumál er ekki sjálfgefið. Minnkandi lestur, hrun í bókaútgáfu, tæknibreytingar, breytt samskipti, allt hefur þetta áhrif á tungumálið. Það ætti að vera forgangsverkefni okkar hér í þessum sal að ná saman um hvað þarf til að vernda tunguna í gerbreyttum heimi þar sem nýjar kynslóðir nýta önnur tungumál æ meir til að tala saman um sín hugðarefni og glata um leið þessum mikilvægu rótum.

Við eigum líka einstaka náttúru, náttúru sem hefur verið okkur gjöful með auðlindum sínum, náttúru sem hefur gildi í sjálfri sér og okkur ber að vernda. Ákvarðanir manna hafa nú þegar haft gríðarleg áhrif á íslenska náttúru. Einstöku landslagi hefur verið fórnað í ýmsum framkvæmdum sem var ætlað að efla íslenskt atvinnulíf. Er kannski kominn tími til að draga línu í sandinn til varnar þeirri ósnortnu náttúru sem við eigum?

Kæru landsmenn. Við höfnina í Gleðivík í Djúpavogi má finna magnað útilistaverk Sigurðar Guðmundssonar þar sem sjá má allmörg granítegg mótuð eftir eggjum þeirra fugla sem verpa í Djúpavogshreppi. Á þessum stað eins og svo víða annars staðar á Íslandi mætast maður og náttúra með einstökum hætti. Þennan stað og marga aðra heimsótti ég í sumar, dáðist að birtunni og náttúrunni en um leið þessu magnaða listaverki. Maður og náttúra geta lifað í sátt — átt samleið þar sem mannsandi og náttúran tala saman. Okkur Íslendingum hefur miðað fram á við í þessu samtali en við eigum enn langan veg fram undan. Við stöndum frammi fyrir gríðarstórum spurningum. Getum við náð saman um friðun miðhálendisins og breytt því í þjóðgarð? Getum við náð lausn í fiskeldismálum þar sem náttúran fær að njóta vafans og við stöndum vörð um þá líffræðilegu fjölbreytni sem felst í villta laxastofninum? Getum við átt þessa umræðu án þess að festast í skotgröfum höfuðborgar og landsbyggðar? Getum við sem búum í þéttbýlinu sýnt þeim skilning sem hafa um árabil staðið í ströngu og barist við að halda uppi byggð þó að ýmsar ákvarðanir, m.a. hér á Alþingi, hafi verið þeim mótdrægar, þeim sem vildu gera út á trillu en áttu aldrei möguleika í svokallaðri frjálsri samkeppni við þá sem fengu kvótann? Getum við átt þetta samtal en um leið tekið ákvarðanir þar sem við ákveðum að vernda náttúru þessa lands sem er einn dýrmætasti fjársjóður sem okkur hefur verið trúað fyrir?

Tungan og náttúran eru ríkidæmi sem skiptir máli hvernig við höldum á. Samfélag okkar er annað dýrmæti. Þar eigum við saman almannagæði. Þar eigum við líka sameiginlega hugmynd um það sem gerir okkur að samfélagi. En hvað er að verða um þá hugmynd sem við viljum byggja samfélag á? Samfélag er sáttmáli sem á að grundvalla á réttlæti. Meðal annars þess vegna er kallað eftir stjórnarskrárbreytingum sem forseti Íslands ræddi hér í gær. Okkur ber skylda til að vinna að slíkum breytingum þó að á ýmsu hafi gengið í þeirri vinnu á undanförnum árum.

Kæru landsmenn. Ranglæti, hvar sem það finnst í samfélaginu, er ógn við réttlætið. Þess vegna megum við aldrei slaka á í baráttu okkar fyrir réttlátu samfélagi. Að bíða með réttlætið jafngildir því að neita fólki um réttlætið — eins og Martin Luther King orðaði það í frægu bréfi.

Stjórnmálamenn mega aldrei vísa í ríkjandi kerfi til að rökstyðja bið eftir réttlæti. Stjórnmálamenn þurfa að vera reiðubúnir að beita sér stöðugt fyrir réttlætinu og breyta kerfinu ef það þarf til. Annars er hættan sú að traust fólks á hinu lýðræðislega samfélagi dvíni og þá ábyrgð þurfum við öll að axla.

Stjórnvöld eiga ekki að biðja fátækt fólk á Íslandi að bíða eftir réttlæti. Núverandi áætlanir þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr gera ráð fyrir því að öryrkjar og aldraðir eigi að halda áfram að hokra og búa við skammarleg kjör. Það á að bjóða atvinnulausu fólki með fullan bótarétt upp á 217.000 kr. á mánuði. Lægstu laun á Íslandi standa enn í 280.000 kr. Þau duga ekki til framfærslu. Og fólk á lægstu launum er beðið að vera þakklátt fyrir 20.000 kr. því að hlutfallslega sé það nú ekki lítið. „Því miður þarf að bíða aðeins með réttlætið fyrir þig,“ er viðkvæðið, „en allt stendur þetta til bóta.“ Þegar þetta fátæka fólk er beðið um að bíða eftir réttlætinu er verið að neita því um réttlæti.

Hið sama má segja um fólk á flótta sem hingað leitar. Talsvert fleiri börnum er vísað frá Íslandi en fá hér hæli, börnum sem hafa alveg örugglega haft mjög lítið val um örlög sín. Þau eru send héðan til landa sem tölvan segir að séu örugg eða hafi meiri reynslu í því að taka á móti fólki á flótta. Gildir þá einu hvað börnin sjálf hafa að segja. Stjórnmálamenn vísa í úrelta Dyflinnarreglugerð og segja: „Réttlætið verður því miður að bíða að þessu sinni. Tölvan segir nei.“ En getum við sagt að samfélag þar sem 36 börnum er vísað úr landi — talsvert fleirum en fá dvalarleyfi — sé réttlátt?

Þetta snýst ekki um einstaka stjórnmálamenn. Og ég er ekki að segja að kerfi séu slæm því að það eru þau ekki en frumskylda stjórnmálamanna er við fólk og leikreglurnar eiga að þjóna fólkinu, tryggja réttlæti og mannúð fyrir alla. Getum við sagt að samfélag þar sem hópum fólks er haldið í fátæktargildru sé réttlátt, fólks sem hefur til að mynda aldrei valið sér þau örlög að verða óvinnufært?

Kæru landsmenn. Ég hef áhyggjur af því að þrátt fyrir efnahagslegan uppgang vanti upp á þennan sameiginlega skilning á því hvað felst í samfélagi. Ég hef áhyggjur af því að of margir séu beðnir um að bíða eftir réttlæti. Og af því að spurt er hvað valdi því að fólk geti ekki komið sér ekki saman um einfalda hluti eins og forgangsröðun er rétt að svara þeirri spurningu fyrir mitt leyti: Hér á Íslandi þarf stjórnvöld sem treysta sér til að útrýma fátækt. Um það hefur ekki verið eining á Alþingi þó að sumir stjórnmálamenn tali eins og hér séu allir sammála um tekjujöfnunarhlutverk skattkerfisins. En við höfum ekki verið sammála um að hlutverk skattkerfis sé að tryggja jöfnuð.

Hér þarf stjórnvöld sem eru reiðubúin að horfast í augu við og bregðast við því að ríkustu 10% eiga þrjá fjórðu alls auðs í landinu. Launajöfnuðurinn sem hæstv. forsætisráðherra nefndi hér áðan er nefnilega aðeins annar hluti myndarinnar um hið jafna samfélag. Eignaskiptingin segir talsvert aðra sögu.

Vaxandi misskipting auðsins sprettur beinlínis af pólitískum ákvörðunum sem hingað til hafa verið þær að ekki megi skattleggja auðinn, ekki megi skattleggja fjármagnseigendur eins og venjulegt launafólk, ekki megi setja sérstakt hátekjuþrep á verulega háar tekjur eins og þær til að mynda sem skila sér í kaupaukagreiðslum sem margir þingmenn flytja gjarnan vandlætingarræður um en heykjast svo á að taka á í gegnum skattkerfið.

Hið sama má segja um þær pólitísku ákvarðanir sem hafa verið teknar um bótakerfin, vaxtabætur og barnabætur, sem nýtast æ færra fólki. Á bak við það eru líka pólitískar ákvarðanir sem hafa ekki miðað að því að auka jöfnuð og draga úr misskiptingu, heldur þvert á móti. Hér þarf stjórnvöld sem eru reiðubúin að taka pólitískar ákvarðanir til að útrýma fátækt og draga um leið úr misskiptingu.

Hér þarf stjórnvöld sem vilja byggja upp menntakerfið. Háskólar og framhaldsskólar þurfa meira fé. Undir það tók meiri hluti fjárlaganefndar í nefndaráliti sínu um fjármálaáætlun síðasta vor. Þær ábendingar birtast hins vegar ekki í fjárlagafrumvarpinu. Því er haldið fram að það eigi að auka hér fé á hvern nemanda, ekki með því að auka fé heldur með því að fækka nemendum, eins og of mikil langskólamenntun sé sérstakt vandamál á Íslandi. Það er hægt að taka pólitíska ákvörðun um að bæta og byggja upp menntakerfið, veðja á fjárfestingu í menntun, rannsóknum og vísindum sem eru í senn mikilvægasta undirstaða blómlegs atvinnulífs og eitt mikilvægasta tækið til að auka jöfnuð og skapa forsendur fyrir einstaklinga til að sækja fram á sínum forsendum.

Hér þarf stjórnvöld sem vilja byggja upp félagslega rekið heilbrigðiskerfi þar sem Landspítalinn stendur undir hlutverki sínu, heilsugæslan fær fjármagn til að vera fyrsti viðkomustaður, setja fjármuni sem um munar í að bæta stöðu geðheilbrigðismála, sem eru verulegt vandamál í okkar góða samfélagi, leggja aukna áherslu á forvarnir til að efla lýðheilsu og heilbrigði — það þarf stjórnvöld sem ekki hafa þá hugsjón í heilbrigðismálum að útvista verkefnum til einkaaðila sem í framhaldinu greiða sjálfum sér arðgreiðslur af almannafé. Það er pólitískt val og pólitísk ákvörðun.

Síðast en ekki síst þarf hér stjórnvöld sem standa með brotaþolum kynferðisbrota, ekki síst börnum. Um það hefur pólitísk umræða sumarsins snúist og hún er mikilvæg fyrir samfélagið allt. Það verkefni þarf að nálgast af alvöru, með fræðslu, breyttri framkvæmd og endurbótum á löggjöf. Um það verðum við að ná saman í þessum sal, þvert á alla flokka.

Frú forseti. Kæru landsmenn. Að undanförnu hefur talsvert verið talað um pólitíska umræðu í kjölfar umræðu um áhrifaleysi þingmanna, vinnutíma þingmanna og ýmislegt annað sem lýtur að hlutverki okkar þingmanna. Ég verð að segja að þingmenn eru að mínu viti forréttindastétt, fólk sem nýtur þeirra forréttinda að vera kosið hingað inn af almenningi í landinu, fær fyrir það ágætlega greitt, til að sinna því hlutverki að tryggja almannahagsmuni. Og það hlutverk eigum við að taka alvarlega. Það hlutverk snýst um að almenningur hafi um það pólitískt val hvernig þessu landi er stjórnað. Það hlutverk snýst um að enginn sé beðinn um að bíða eftir réttlætinu, að stofnanir samfélagsins séu réttlátar, að stjórnmálamenn tryggi að kerfið þjóni fólkinu en ekki öfugt. Okkar aðalhlutverk er að vernda það raunverulega ríkidæmi sem fólkið í þessu landi á, þær eignir sem mestu máli skipta, sumar áþreifanlegar, aðrar óáþreifanlegar. Gleymum því ekki á þinginu fram undan sem ég vona að verði gjöfult og gott fyrir okkur öll.