147. löggjafarþing — 2. fundur,  13. sept. 2017.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:21]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Forseti. Kæru landsmenn. Í fyrradag voru átta mánuðir frá því að ég, í umboði kjósenda Bjartrar framtíðar, steig inn í umhverfis- og auðlindaráðuneytið sem ráðherra. Ég setti mér þá tvö meginmarkmið. Það fyrra var að snúa landinu okkar á afgerandi hátt af þeirri leiðu braut sem stjórnvöld hafa á síðustu árum fetað í of mikilli losun gróðurhúsalofttegunda, meðal annars með ívilnunum til mengandi stóriðju. Stærsta skrefið á þeirri leið höfum við þegar stigið. Það verða ekki gerðir ívilnunarsamningar um mengandi stóriðju í þessari ríkisstjórn, eða í hvaða ríkisstjórn sem Björt framtíð mun eiga sæti í.

Á næstu mánuðum verður stigið annað stórt skref því fram undan er aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem ég leiði ásamt forsætisráðherra. Til þess að vinna gegn loftslagsbreytingum af manna völdum þurfa allir að vera með því að breytingin verður að vera varanleg. Aðgerðaáætlunin er hornsteinn í að horfa lengra til framtíðar þar sem við höfum alla burði til að vera kolefnishlutlaust land.

Í janúar næstkomandi kynnum við mælanleg og tímasett markmið um hvernig mismunandi verkefni munu ná fram að ganga. Ábyrgð og skyldum er dreift því að tækifærin liggja víða. Við þurfum að leggjast öll á eitt í þessu gríðarstóra sameiginlega verkefni.

Góðir landsmenn. Hitt meginmarkmiðið, sem ég setti mér 11. janúar síðastliðinn, er verndun víðerna og þeirrar ósnortnu náttúru sem við finnum á miðhálendi Íslands. Þetta eru okkar gersemar. Þær finnast ekki annars staðar í heiminum á þeim mælikvarða sem við þekkjum þær. Fossárgljúfur, lindár sem spretta fram undan hrauni, hverir, tindar og jöklar. Á miðhálendinu má finna staði þar sem manni er til efs, þegar maður litast þar um, að nokkur annar hafi stigið þar áður niður fæti. Þetta er upplifunin sem fáir staðir annars staðar í heiminum gefa. Þetta vita ferðamennirnir. Þess vegna koma þeir hingað. Þetta vita bændurnir sem sækja fé sitt á fjall á hverju hausti. Þetta vita heimamenn. Þetta verðum við að vernda.

Vinnan þessa átta mánuði hefur gengið vel. Í loftslagsmálunum er starfandi verkefnastjórn með aðkomu fulltrúa atvinnulífs, félagasamtaka, stjórnmálaflokka og sveitarfélaga. Í hálendismálunum hefur verið unnin mikil greiningarvinna. Ég hef einnig fundað með öllum þeim 22 sveitarfélögum sem eiga land að miðhálendinu því það er mikilvægt að skilningur og traust sé á þessu verkefni og að fólk sjái sér hag í því, ekki síst fyrir byggðirnar.

Það er eindregin skoðun okkar í Bjartri framtíð og rauður þráður í allri okkar vinnu að góð mál verða betri og endast lengur ef fleiri koma að þeim.

Kæru Íslendingar. Það er fyrst og síðast mín skylda sem umhverfis- og auðlindaráðherra að vinna að vernd náttúrunnar og sjálfbærni auðlinda okkar. Við höfum ekkert leyfi til að ganga á þær með ósjálfbærum hætti. Náttúran í sinni víðustu mynd er sú auðlind sem gefur okkur líka mest til baka.

Björt framtíð er lítill flokkur og kannski verður hann ekki til staðar um ókomin ár. Kannski verður hann risastór. Það skiptir ekki máli. Það sem skiptir máli eru málefnin. Þau ráða för hjá okkur í Bjartri framtíð. Þau eru stærri en við. Það eru náttúruverndarsinnar í öllum flokkum. Að ætla sér eignarhald á málaflokknum býr til svart/hvíta umræðu sem er íslenskri náttúru ekki til framdráttar. Ég er mjög stolt af því að hafa ýtt undir áhuga og skilning samstarfsflokka okkar í ríkisstjórn á mikilvægi umhverfismála. Ég vil helst að allir þingmenn og allir ráðherrar geri sig breiða um náttúru og umhverfi okkar og setji sér og sínum flokkum háleit markmið þar um. Þannig næst samhljómur og þannig komumst við áfram.

Það verður að segjast að það er sérstaklega ánægjulegt að tekið sé undir með okkur í Bjartri framtíð um að náttúruvernd sé ekki síst stórt efnahagsmál. Einnig er gott að sjá aðra flokka á Alþingi snúa af þeirri braut að greiða álverum og kísilmálmverksmiðjum leið hingað en snúast nú á sveif með Bjartri framtíð í andstöðu gegn þannig mengunarvöldum. Eins og íbúar Reykjanesbæjar vita manna best höfum við því miður ekki kvatt þetta vandamál þrátt fyrir góðar fyrirætlanir. Ákvarðanir fyrri ríkisstjórna hafa séð fyrir því. En nú þurfa stjórnmálamenn, sveitarstjórnarfólk, lífeyrissjóðir og bankar að hlusta á almenning frekar en að vinna fyrir fjármagnið.

Kæru landsmenn. Að lokum vil ég minnast á innflytjendamálin. Björt framtíð vill auka fjölbreytni íslensks mannlífs og fagnar þeim sem hingað vilja flytja. Jafnframt þessu hefur flokkurinn talað fyrir ábyrgri langtímahugsun og því að jafnræðis sé gætt. Nú liggur fyrir frumvarp Bjartrar framtíðar sem skilgreinir betur viðkvæma stöðu þeirra barna sem hingað leita í ósk um alþjóðlega vernd. Þannig skilgreinist líka betur ábyrgð ríkisins í þessum efnum. Það frumvarp er unnið með nákvæmlega þessi mikilvægu atriði í huga, ábyrga langtímahugsun og jafnræði. Ég vona að Alþingi sé sammála okkur í því að vinna að því máli.

Kæru Íslendingar. Ég hef nú á skömmum tíma — of skömmum tíma — farið yfir það hvernig Björt framtíð vinnur að mikilvægum málum með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi. Því ætlum við að halda ótrauð áfram. — Góðar stundir.